Skip to main content
07:45 - 12:05 & 12:45 - 17:00 mán - fim
|
07:45 - 12:05 & 12:45 - 16:00 fös
+354 565 1090
Flatahraun 7 Kort

Um okkur

Mynd
Logo - BJB

Saga Pústþjónustu BJB ehf.:

Pústþjónusta BJB („BJB“) var stofnuð árið 1979 af Birni Jóhanni Björnssyni í Grófinni í Keflavík. Björn starfið einn flesta mánuði ársins fyrstu árin en á vorin kom Sigurður Jóhann Sigurðsson, betur þekktur sem Siggi. Árið 1983 flutti BJB sig að Trönuhrauni 2 í Hafnarfirði þar sem Björn eða Bjössi eins og hann er almennt kallaður, ásamt Sigga áttu eftir að vinna sig inn í huga og hjörtu margra með pústreddingum og sérsmíði. Nokkrum árum seinna flutti félagið starfsemi sína aftur og nú að Helluhrauni í helmingi stærra húsnæði. Í framhaldinu jókst starfsmannafjöldi félagsins jafnt og þétt. Í kringum 1990 hóf BJB að flytja inn pústkerfi frá Bretlandi en fram til þess hafði allt pústefni verið keypt innanlands. Starfsemin jókst mikið á árunum 1990-1999 með aukinni þörf fyrir stærra húsnæði en árið 1999 flutti félagið svo aftur starfsemi sína í hluta núverandi húsnæðis að Flatahrauni 7 í Hafnarfirði. Í framhaldinu var BJB orðið eitt stærsta og fullkomnasta pústverkstæði landsins þar sem smíðað var pústkerfi í flest allar gerðir ökutækja. Árið 2002 hófust svo framkvæmdir við loka áfanga hússins að Flatahrauni 7 þegar byggt var við húsið meðfram Flatahrauninu. Að þeim áfanga loknum var heildarstærð hússins orðið nærri 1000 fm. sem þá hýsti verkstæði og lager BJB á neðri hæð hússins en efri hæð hússins var þá ónýtt.

Í september 2007 keypti Piero Segatta ásamt fjölskyldu og vinum Pústþjónustu BJB af Bjössa. Í framhaldinu var ráðist í umtalverðar breytingar á rekstri félagsins þegar BJB kynnti til sögunnar aukna þjónustu í formi smærri viðhaldsviðgerða á föstum einingaverðum auk hjólbarðasölu og -þjónustu. Í framhaldinu óx félagið jafnt og þétt með tilheyrandi aukningu starfsmanna og voru þegar mest lét að nálgast tuttugu. Árið 2015 keypti eigandahópur Pústþjónustu BJB, félögin Mótorstillingu og Bíla áttuna og sameinaði undir nafni Mótorstillingar á einum stað í Kópavogi þar sem boðið var upp á allar almennar bifreiðaviðgerðir auk hjólbarðasölu og -þjónustu. Í lok árs 2018 var svo ákveðið að sameina Pústþjónustu BJB og Mótorstillingu undir einu þaki í Hafnarfirði sem lauk með flutningi Mótorstillingar í Flatahraun 7 í janúar 2019. Í dag starfa sextán starfsmenn hjá sameinuðu félagi BJB-Mótorstillingar sem veitir mjög breytt vöru- og þjónustuúrval á sviði pústs og fylgihluta, varahluta og viðgerða fyrir allar gerir bíla, auk þess að bjóða dekk og felgur frá heimsþekktum framleiðendum á borð við Continental, Vredestein, Apollo, Gislaved, General, Vossen wheels, GMP Italia og Vision wheels svo einhverir séu nefndir. Að auki sérhæfir BJB-Mótorstilling sig í varahlutum og viðgerðum fyrir ameríska bíla ásamt því að bjóða upp á ýmsar sérlausnir á dekkjum og tengdum vörum fyrir ýmis konar iðnað. 

Saga Mótorstillingar:

Mótorstilling var stofnuð 1. maí 1977 af Lofti Loftssyni við Miðtún í Garðabæ. Loftur starfaði fyrstu árin einn hjá Mótorstillingu og sá á þeim tíma aðallega um mótorstillingar ásamt ýmsum almennum bifreiðaviðgerðum. Árið 1984 byggði Loftur húsnæðið að Skeiðarási 4 þar sem Mótorstilling var til fjölda ára. Allt frá upphafi hefur Mótorstilling kappkostað að hafa alltaf yfir að ráða nýjustu og fullkomnustu tækni sem til er á hverjum tíma og gerir enn. Jón Borgar Loftsson betur þekktur sem Boggi aðstoðaði pabba sinn frá upphafi en hóf formlega störf hjá Mótorstillingu árið 1986. Árið 1989 hóf Boggi störf hjá Jötni bílaverkstæði, umboðsaðila General Motors á Íslandi þaðan sem sérhæfing hans á amerískum bílum er komin. Árið 1993 keypti Ingvar Helgason, Jötun bifreiðaverkstæði, undir nafninu Bílheimar. Bílheimar var þá orðinn umboðsaðili fyrir GM, Saab, Opel og Isuzu. Fyrsta mars 1996 söðlaði Boggi um og tók við Mótorstillingu af pabba sínum. Félagið var áfram staðsett í Skeiðarásnum og störfuðu fjórir starfsmenn þegar flest var hjá Mótorstillingu í Garðabæ. Árið 2015 varð mikil breyting á rekstri Mótorstillingar þegar nýir aðilar komu ásamt Bogga að rekstri félagsins og það sameinaðist Bíla áttunni. Þann 13 apríl 2015 opnaði sameinað félag Mótorstillingar og Bíla áttunnar að Smiðjuvegi 30 í Kópavogi, starfmönnum hafði nú fjölgað talsvert og jókst þjónustu- og vöruframboð Mótorstillingar til muna ásamt því að hefja við breytinguna sölu á dekkjum. Seinnipart ársins 2017 tók Mótorstilling svo við þjónustu Saab bifreiða á Íslandi af BL auk þess að vera viðurkenndur þjónustuaðili IB bíla frá Selfossi.

Í janúar 2019 sameinaðist Mótorstilling svo Pústþjónustu BJB að Flatahrauni 7 í Hafnarfirði þar sem í dag er rekin verslun auk fullbúins bifreiðaverkstæðis til almennra bifreiðaviðgerða og hjólbarðaþjónustu. Eftir sameiningu félaganna starfa hjá félaginu sextán starfsmenn sem mynda reynslumikið og öflugt teymi viðgerðarmanna. Í dag veitir sameinað félag Mótorstillingar og BJB alla almenna viðgerðar- og pústþjónustu fyrir flesta tegundir bifreiða í glæsilegum húsakynnum að Flatahrauni 7. Einnig býður félagið upp á mikið úrval dekkja og felga undir flestar tegundir bifreiða, fjórhjóla, buggy-bíla, dráttarvéla og annarra tækja frá heimsþekktum framleiðendum á borð við Vredestein og General.

 

Nafn:                                Pústþjónustan BJB ehf. (BJB)

Heimilisfang:                  Flatahraun 7

Póstnúmer:                     220

Staður:                             Hafnarfjörður                  

Kennitala:                       690494-2649

Vsk númer:                     42286

Leyfisskilyrði:                  Félagið uppfyllir öll skilyrði Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogs til reksturs bifreiðaverkstæðis